Jón Viggó Gunnarsson

Ávarp framkvæmdastjóra

jon

Róttækar og umfangsmiklar breytingar eru orðnar hið stöðuga ástand. Við erum stöðugt að bregðast við nýjum heimi, nýrri tækni, vandamálum og áskorunum. Þetta er heimurinn sem við lifum í. Stærsta verkefni mannkyns er loftlagsbreytingar og ein öflugasta og mikilvægasta aðgerðin gegn því er innleiðing hringrásarhagkerfis. Fyrir íslenskt samfélag hefur þetta mikla þýðingu; að betrumbæta hagkerfið okkar í leiða það í átt að sjálfbærni og betri nýtingu á auðlindum. Mestu áskoranir og tækifæri liggja í því hvað við gerum við úrganginn okkar.

Eitt meginhlutverk SORPU er að styðja við þessar breytingar og leiða íslenskt samfélag í átt að hringrásarhagkerfi. Þessar breytingar voru innleiddar í íslenskt regluverk í júní 2021 og komu til framkvæmda 1. janúar 2023. Því hefur árið 2022 verið ár undirbúnings fyrir þær miklu breytingar sem fram undan eru. Þessi nýja lagasetning, sem oft er kölluð hringrásarlögin, kalla nýja á hegðun, hugsun, nýja innviði og nýtt flokkunarkerfi. Þetta eru því einhverjar stærstu breytingar í sögu SORPU og það hefur verið spennandi verkefni að taka þátt í þeirra vinnu sem kalla á breiða og víðtæka samvinnu og samstarf.

Góði hirðirinn öðlast nýtt líf

Eitt af þessum verkefnum var að finna Góða hirðinum nýtt heimili. Góði hirðirinn er ein helsta miðstöð endurnotahagkerfisins á Íslandi þar sem notuðum vörum er fundið framhaldslíf hjá nýjum eigindum. Starfsemi og hlutverk Góða hirðisins hefur vaxið hratt í seinni tíð og hann hefur laðað að safnara, hönnuði, listamenn, verslunarfólk og umhverfissinna í sí auknum mæli og því var löngu orðið tímabært að finna nýtt og stærra húsnæði. Við vorum svo heppin að finna nýjan stað í gömlu Kassagerðinni við Köllunarklettsveg þar sem möguleikar verslunarinnar margfaldast. Allt húsið mun hýsa margskonar hringrásarstarfsemi og vera miðstöð fyrir sjálfbærni og nýja hugsun.

Samræmt flokkunarkerfi

Hringrásarhagkerfi byggist á samtakamætti – að allir vinni saman að sama markmiði. Grunnþáttur kerfisins er að safa saman þessum mikilvægu auðlindum sem við köllum úrgang. Góð flokkun á upprunastað er lykilþáttur hringrásarhagkerfis og í nýju lögin kalla á að öll heimili flokki í fjóra flokka: matarleifar, plastumbúðir, pappír, og blandaðan úrgang. Sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu tóku þá ákvörðun að fara sömu leið og taka upp samræmt flokkunarkerfi og SORPA fékk það hlutverk að leiða þær breytingar í gegn. Þessi vinna á árinu hefur kennt okkur margt: samtakamáttinn sem felst í því þegar allt þetta svæði og þessi sveitarfélög vinna saman. Í þessu felst mikil hagræðing en fyrst og fremst gerir þetta öllum auðveldara fyrir að flokka.

Þjónusta við almenning

SORPA er rekin án hagnaðarsjónarmiða með umhverfi, samfélag og hagkvæmni að leiðarljósi. Frá upphafi hefur verið lögð rík áhersla á samfélagslega ábyrgð í allri starfsemi SORPU og að fyrirtækið stuðli að sjálfbærum gildum sem víðast í samfélaginu. Við erum að þjóna umhverfinu og störfum í almannaþágu.

SORPA starfrækir endurvinnslustöðvar um allt höfuðborgarsvæðið og þar fer fram þýðingarmikil samvinna og ekki síst samtal við fólk um endurnýtingu og endurvinnslu. Við þökkum öllu því góða fólki sem hefur mætti til okkar, með allt saman flokkað og fínt í glærum pokum. Endurvinnsluhlutfallið hefur vaxið ár frá ári og dregið hefur stórlega úr því magni sem sent hefur verið til urðunnar. Það er ákall um aukna þjónustu og sífellt meiri kröfur um betri og sértækari flokkun. SORPA hefur mætt þessu ákalli og áskorunum og á endurvinnslustöðvarnar sinna markverðu hlutverki í hringrásarhagkerfinu. Það er gagnlegt fyrir okkur mæta þar og spjalla við fólk, sinna fræðslu og upplýsingagjöf, samhliða því að taka á dýrmætum auðlindum og koma þeim í réttan farveg. Við þökkum sérstaklega öllum þeim sem hafa gefið góða og fallega muni í gám Góða hirðisins.

GAJA er loftlagsverkefni

Sérsöfnun og endurvinnsla á matarleifum í GAJA og framleiðsla og á metan og moltu er umsvifamikið loftlags- og umhverfisverkefni. Í stað þess að urða lífrænan úrgang með tilheyrandi mengun, eru framleidd mikilverð verðmæti, græn orka og á komandi tímum, jarðvegbætir og áburður fyrir skógrækt og landgræðslu. Árið 2022 hefur verið mikið undirbúningsár fyrir breyttar kröfur og aðferðir. Vel hefur gengið að lagfæra þá myglu sem upp kom í húsinu og ýmsar gagnlegar endurbætur hafa átt sér stað til þess að gera starfsemina klára fyrir komandi ár. Við erum stolt af GAJU. Hún á eftir að leika stórt hlutverk í metnaðarfullum áformum sveitarfélaganna um að ná kolefnishlutleysi. Á árinu 2023 stefnir í að útflutningur á brennanlegum úrgangi hefjist og dragi þannig verulega úr urðunar í Álfsnesi.

Ár breytinga

Þetta er ár var fyrst og fremst undirbúningur fyrir miklar breytingar. Mannskepnan er í eðli sínu þekkt fyrir mikla aðlögunarhæfni og kann að bregðast hratt og vel við breyttum aðstæðum. Íslendingar hafa sýnt það og sannað hversu öflug við erum og samstíga þegar kemur að breytingum og brýnum samfélagsverkefnum. Innleiðing hringrásarhagkerfis er slíkt verkefni og nú reynir á að við stöndum öll saman í þessum miklu breytingum sem fram undan eru.